FSS hefur gert samkomulag við SFR um styrki til starfsmenntunar

Síðan Starfsmenntunarsjóður BSRB var lagður niður um síðastliðin áramót hefur FSS unnið að úrlausn starfsmenntunarmála sinna félagsmanna. Þetta hefur tekið lengri tíma en vonast var til, en úrlausnin er vonandi þess virði að hafa beðið eftir henni.
FSS hefur gert samkomulag við SFR – stéttarfélag í almannaþjónustu, um að SFR sjái um að þjónusta félagsmenn FSS vegna fræðslustyrkja úr starfsmenntunarsjóði og starfsþróunarstyrkja.
2 starfsmenn SFR þær Jóhanna Þórdórsdóttir og Íris Gefnardóttir hafa fengið aðgang að félagaskrá FSS en þar eru allar upplýsingar um lengd félagsaðildar og greidd félagsgjöld. Þetta gefur félagsmönnum FSS full réttindi til styrkja úr sjóðunum frá 1. janúar 2017 miðað við starfsaldur. Einnig veita þær Jóhanna og Íris upplýsingar um sjóðina, úthlutunarreglur og annað sem félagsmenn gætu spurt um.

Sjá úthlutunarreglur og fleira undir síðunni Sjóðir

Aðalfundi FSS frestað fram í september 2016

Á trúnaðarmannafundi FSS sem haldinn var 8. júní 2016 var samþykkt að fresta aðalfundi félagsins, sem að venju er haldinn í maí, til september 2016.

Ástæðan er meðal annars sú að reikningar félagsins fyrir árið 2015 eru í endurskoðun félagskjörinna endurskoðenda sem gera athugasemdir við framsetningu.

Aðalfundurinn verður boðaður samkvæmt. lögum félagsins í september næstkomandi.

BSRB skoðar aðkomu að íbúðafélagi

Stjórn BSRB hefur nú til skoðunar hvort bandalagið muni koma að stofnun íbúðafélags ásamt Alþýðusambandi Íslands (ASÍ). Félagið mun verða leigufélag sem rekið verður án hagnaðarsjónarmiða. Það mun skýrast á næstu vikum hvort, og þá hvernig, BSRB muni taka þátt í stofnun íbúðafélagsins.

Mikil þörf segir formaður BSRB
„Þetta er mikilvægt mál sem stjórn BSRB hefur verið með til skoðunar. Við þurfum að fara vandlega yfir alla þætti málsins áður en við tökum ákvörðun um aðkomu bandalagsins að málinu, en þörfin fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði fyrir tekjulægstu hópana ætti að vera öllum ljós,” segir Elín Björg Jónsdóttir, formaður BSRB.

Sjá nánar frétt á heimasíðu BSRB

 

Eitt orlofshús í eigu BSRB til útleigu

Eins og kunnugt er hafa aðildarfélög BSRB á undanförnum árum tekið yfir rekstur orlofshúsa sinna hvort sem um er að ræða orlofshúsabyggðina í Munaðarnesi eða annarsstaðar á landinu. Til að kynna sér hvaða orlofshús standa félagsmönnum til boða þurfa félagsmenn að fara inn á síður viðkomandi aðildarfélags og bóka orlofshús þar.

Birkihlíð í Munaðarnesi

Birkihlíð í Munaðarnesi

BSRB hefur aðeins eitt orlofshús til umráða og er það nú leigt út til félagsmanna aðildarfélaga BSRB. Birkihlíð er orlofshús á tveimur hæðum sem staðsett er í Munaðarnesi í Borgarfirðinum. Húsið var allt tekið í gegn fyrir sumarið 2014 og er það nú búið veglegum sólpalli sem nær í kringum þrjár hliðar hússins. Þar er einnig heitur pottur og fallegt útsýni yfir Norðurá. Á efri hæð hússins er samliggjandi stofa og borðstofa þaðan sem opið er inn í eldhús. Á hæðinni er einnig stórt svefnherbergi með hjónarúmi auk lítils salernis. Á neðri hæð hússins er sjónvarpskrókur með svefnsófa auk tveggja svefnherbergja með aðskildum rúmum. Þar er einnig stórt baðherbergi með þvottavél og sturtu. Af neðri hæðinni er hægt að ganga út á pallinn þar sem heiti potturinn er ásamt gasgrilli. Birkihlíð hefur því svefnaðstöðu fyrir átta manns fullorðna auk þess sem þar er rimlarúm fyrir börn.

Helgarleiga fyrir húsið er kr. 25.000,- og heil vika kostar kr. 35.000,-. Bókanir og frekari upplýsingar um útleigu hússins eru veittar á skrifstofu BSRB í síma 525 8300 eða á netfangið bsrb@bsrb.is og einnig á netfangið asthildur@bsrb.is