Eitt orlofshús í eigu BSRB til útleigu

Eins og kunnugt er hafa aðildarfélög BSRB á undanförnum árum tekið yfir rekstur orlofshúsa sinna hvort sem um er að ræða orlofshúsabyggðina í Munaðarnesi eða annarsstaðar á landinu. Til að kynna sér hvaða orlofshús standa félagsmönnum til boða þurfa félagsmenn að fara inn á síður viðkomandi aðildarfélags og bóka orlofshús þar.

Birkihlíð í Munaðarnesi
Birkihlíð í Munaðarnesi

BSRB hefur aðeins eitt orlofshús til umráða og er það nú leigt út til félagsmanna aðildarfélaga BSRB. Birkihlíð er orlofshús á tveimur hæðum sem staðsett er í Munaðarnesi í Borgarfirðinum. Húsið var allt tekið í gegn fyrir sumarið 2014 og er það nú búið veglegum sólpalli sem nær í kringum þrjár hliðar hússins. Þar er einnig heitur pottur og fallegt útsýni yfir Norðurá. Á efri hæð hússins er samliggjandi stofa og borðstofa þaðan sem opið er inn í eldhús. Á hæðinni er einnig stórt svefnherbergi með hjónarúmi auk lítils salernis. Á neðri hæð hússins er sjónvarpskrókur með svefnsófa auk tveggja svefnherbergja með aðskildum rúmum. Þar er einnig stórt baðherbergi með þvottavél og sturtu. Af neðri hæðinni er hægt að ganga út á pallinn þar sem heiti potturinn er ásamt gasgrilli. Birkihlíð hefur því svefnaðstöðu fyrir átta manns fullorðna auk þess sem þar er rimlarúm fyrir börn.

Helgarleiga fyrir húsið er kr. 25.000,- og heil vika kostar kr. 35.000,-. Bókanir og frekari upplýsingar um útleigu hússins eru veittar á skrifstofu BSRB í síma 525 8300 eða á netfangið bsrb@bsrb.is og einnig á netfangið asthildur@bsrb.is