Saga FSS

Félag starfsmanna stjórnarráðsins var stofnað með samþykkt fyrstu laga félagsins 13. apríl 1943.

Félagið var stofnað af starfsfólki stjórnarráðsins til þess að auka kynningu milli starfsfólks og vinna að húsnæðismálum, ferðalögum og skemmtistarfsemi. Tekið er fram í fyrstu lögunum að félagið hafi engin afskipti af kaupgjaldsmálum, en það breyttist fjótlega.

Fyrsta stjórn var skipuð svo: Baldur Möller formaður, Sigurður Ólason ritari, Svanhildur Ólafsdóttir gjaldkeri.
Varamenn í stjórn voru Gústav A. Jónsson, Jón Gunnlaugsson og Kristmundur Jónsson.

Fyrsta verkefni félagsins var að skipuleggja skemmtiferð í Þjórsárdal, einnig var á fyrsta fundi stjórnar kosin byggingamálanefnd til að stofna samtök meðal félagsmanna um að koma sér upp orlofshúsum.

Fyrstu árin var verkefni félagsins að efla félagsstarf meðal starfsmanna stjórnarráðsins meðal annars með því að berjast fyrir því að komið væri upp kaffistofu fyrir starfsfólk þar sem einnig væri hægt að koma saman og spila bridge eða tefla. Eftir það sá félagið um rekstur matstofu fyrir starfsfólk fram á níunda áratuginn. Einnig stóð félagið fyrir vetrarskemmtun eða árshátíð og efndi til sumarferða félagsmanna. Lengi var til skáksveit félagsins og keppti hún á ýmsum skákmótum ríkisstarfsmanna.

Í byrjun árs 1951 voru gerðar þær lagabreytingar að félagið skuli vinna að kjaramálum.

Seinna þetta sama ár kemur Ólafur Björnsson formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja á félagsfund og kynnir fyrirhugaða inngöngu félagsins. Seinna sama ár er samþykkt að ganga í BSRB og kosnir voru 3 fulltrúar á þing bandalagsins en það voru: Sigurður Ólason, Hannes Jónsson og Kristján Thorlacius.

Lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem sett voru 1973 kváðu á um að hvert starfsmannafélag gæti einungis verið aðili að einum heildarsamtökum, annað hvort BSRB eða BHM. Þetta varð til þess að háskólamenntaðir starfsmenn stjórnarráðsins sögðu sig úr félaginu. Eftir það sinnti félagið kjaramálum sinna félagsmanna en komið var á fót starfsmannaráði beggja félaganna sem sá m.a. um rekstur matstofunnar í Arnarhvoli. Einnig höfðu félögin góða samvinnu um umsjón með árshátíð Stjórnarráðsins um árabil og lengi var uppi sá góði siður að bjóða eftirlaunaþegum stjórnarráðsins til kaffisamsætis einu sinni á ári.

1993 varð FSS 50 ára og var haldið upp á það með veislu í Borgartúni 6. Til veislunnar var boðið félagsmönnum, öðru starfsfólki stjórnarráðsins og einnig þeim starfsmönnum sem komnir voru á eftirlaun. Þessi veisla var fjölsótt og þótti takast vel.

Félagið heldur ekki úti skrifstofu en byggir upplýsingastreymi sitt til félagsmanna á trúnaðarmönnum sem eru í hverju ráðuneyti. Jafnframt eru allar mikilvægar upplýsingar sendar félagsmönnum með tölvupósti. Þá er félagið að sjálfsögðu með heimasíðu, þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar og fréttir.

Orlofshús FSS

Eitt af stærstu viðfangsefnum félagsins hefur ætíð verið rekstur orlofshúsa. Fyrsta húsið sem félagið fékk til að leigja félagsmönnum sínum var í orlofshúsabyggð BSRB í Munaðarnesi og var það tekið í notkun 1975. Húsið var mikið notað enda byggt í fögru umhverfi Borgarfjarðar.

Nokkru síðar var fengin lóð í Flatey á Breiðafirði til að byggja á sumarhús og það hús var tekið í notkun árið 1980. Stjórn félagsins hefur verið framsýn þegar þessi ákvörðun var tekin því þó ekki hafi alltaf verið mikil aðsókn að húsinu gegnum árin er það orðið mjög vinsælt síðustu ár og ekki margir sem eiga athvarf í þessari fallegu eyju.

Næst var keypt raðhús á Akureyri við Lönguhlíð 5E. Stjórn félagsins taldi að þá íbúð væri hægt að leigja félagsmönnum ekki einungis yfir sumartímann heldur allt árið. Fyrstu árin var ekki mikil aðsókn í vetrarleigu en það hefur mikið breyst og er húsið nokkuð vel nýtt yfir vetrartímann auk þess sem sumarvikurnar eru eftirsóttar.

Þá var ráðist í byggingu á nýju og glæsilegu húsi í landi Efri-Reykja í Biskupstungum. Húsið var tekið í notkun sumarið 2000 og hefur síðan þá verið nýtt af félagsmönnum allan ársins hring.

Aðsókn að orlofshúsinu í Munaðarnesi dalaði mikið á seinni hluta tíunda áratugarins og árið 2000 var þess farið á leit við BSRB að það leysti húsið til sín og var það gert.

Árið 2010 bauð BSRB aðildarfélögum að leysa til sín húsin í Munaðarnesi að nýju og FSS fékk þá úthlutað húsi nr. 19. Það hús var hins vegar orðið verulega lúið og einangrun léleg. Í janúar 2013 var samþykkt á fundi félagsmanna að taka tilboði í gagngerar endurbætur á húsinu. Þeim viðgerðum og breytingum lauk í mars 2014 og er húsið nú stórglæsilegt.

Kjaramál

Eftir að FSS varð aðili að BSRB voru kjarasamningar á höndum heildarsamtakanna. Með öðrum aðildarfélögum BSRB tók FSS þátt í fyrsta allsherjarverkfalli opinberra starfsmanna 1977, tveggja daga verkfalli 1978 og síðan verkfalli 1984. Með breytingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna 1986 var afnuminn réttur allra starfsmanna Stjórnarráðsins til að fara í verkfall.

Árið 1986 fengu opinber stéttarfélög sjálfstæðan samningsrétt með breytingum á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Eftir það hefur FSS gert kjarasamning fyrir sína félagsmenn við eina vinnuveitandann, samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármálaráðherra. Félagið hefur haft samvinnu með öðrum aðildarfélögum BSRB í stærri málum svo sem mótun þjóðarsáttarsamninganna sem gerðir voru 1990 og kjarasamninga sem gerðir voru 1997 en í þeim var tekið í notkun nýtt launakerfi. Í kjölfar þeirra samninga var mikil vinna lögð í gerð aðlögunarsamninga í hverju ráðuneyti og komu trúnaðarmenn félagsins þar að verki með stjórn félagsins.