Lög Félags starfsmanna stjórnarráðsins

 

1. gr.

Félagið heitir Félag starfsmanna stjórnarráðsins. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr.

Félagið er stéttarfélag og fer með umboð félagsmanna í kjaraviðræðum og annast gerð kjarasamninga fyrir hönd þeirra.

Félagið beitir sér fyrir því að vinna að kjarabótum, standa vörð um réttindi og hagsmuni félagsmanna og stuðla að góðu aðgengi að upplýsingum og fræðslu um réttindi, skyldur og hagsmuni félagsmanna sinna.

Félagið á og rekur orlofshús fyrir félagsmenn.

3. gr.

Félagsmenn skulu teljast allir þeir starfsmenn stjórnarráðsins sem taka laun samkvæmt samningi Félags starfsmanna stjórnarráðsins við fjármálaráðherra, svo og þeir sem ekki hafa lög- eða samningsbundna aðild að öðru félagi, enda verði starf þeirra talið aðalstarf sbr. lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

4. gr.

Félagsmaður sem lætur af störfum við stjórnarráðið telst ekki lengur félagi. Ákvæði þetta gildir þó ekki um lífeyrisþega sem láta af störfum. Lífeyrisþegar hafa ekki atkvæðisrétt um önnur málefni félagsins en þau er beinlínis snerta sérmál þeirra. Félagsmaður er lætur af starfi um stundarsakir vegna náms er varðar starf hans glatar ekki félagsrétti.

Félagsmaður sem verður atvinnulaus skal halda félagsaðild og þeim réttindum sem er á færi félagsins að veita á meðan hann nýtur atvinnuleysisbóta. Atvinnulaus félagsmaður greiði félagsgjald, en heimilt er stjórn félagsins að fella það niður að hluta eða öllu leyti.

5. gr.

Þeim starfsmönnum stjórnarráðsins sem ákvæði 3. gr. ná ekki til skal gefinn kostur á að gerast aukafélagar gegn ákveðnu aðildargjaldi, sem verði 60% af aðildargjaldi félagsmanna skv. 3. gr., eins og það er á hverjum tíma.

6. gr.

Sá sem óskar að gerast félagsmaður samkvæmt 5. gr., skal senda félagsstjórninni skriflega umsókn þar um. – Úrsögn skal einnig vera skrifleg.

7. gr.

Félagsmaður samkvæmt 5. gr. er ekki kjörgengur í stjórn félagsins og hefur ekki atkvæðisrétt við stjórnarkjör. Ekki hefur hann heldur tillögu- eða atkvæðisrétt varðandi kjaramál.

8. gr.

Félagsmaður samkvæmt 5. gr. öðlast sama rétt og fullgildur félagsmaður til dvalar í orlofshúsum félagsins í samræmi við reglur sem stjórn félagsins setur þar um. Ennfremur hefur hann rétt til þátttöku í ferðalögum og annarri skemmtistarfsemi á vegum félagsins.

9. gr.

Stjórn félagsins skipa fimm menn, formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnandi. Formaður og varaformaður skulu kosnir sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórnin sjálf með sér verkum.

Varastjórn skipa þrír menn. Þeir skulu boðaðir á stjórnarfundi og taka þátt í störfum stjórnar en atkvæðisrétt hafa þeir aðeins í forföllum aðalmanna.

Endurskoðendur reikninga félagsins skulu vera tveir og einn til vara.

Kjör stjórnar og endurskoðenda skal fara fram skriflega. Ef tilnefndir eru jafn margir og kjósa skal teljast þeir þó rétt kjörnir án atkvæðagreiðslu.

10. gr.

Stjórn félagsins hefur æðsta vald í málefnum þess milli félagsfunda að svo miklu leyti sem lög félagsins og fundarsamþykktir takmarka það vald ekki. Stjórnin skal framkvæma ákvarðanir félagsfunda og vera í fyrirsvari fyrir félagið út á við. Formaður boðar stjórnarfundi. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar mætir og ræður afl atkvæða úrslitum.

11. gr.

Aðalfund skal halda fyrir apríllok ár hvert.

Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

  1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  2. Skýrsla félagsstjórnar og endurskoðaðir reikningar félagsins.
  3. Lagabreytingar, ef fram koma.
  4. Ákvörðun um félagsgjald.
  5. Kosning stjórnar og endurskoðenda, sbr. 9. gr.
  6. Önnur mál.

12. gr.

Félagsstjórn boðar til funda í félaginu þegar hún telur ástæðu til. Skylt er henni að boða til fundar ef a.m.k. 10 félagsmenn krefjast þess enda tilgreini þeir fundarefni. Félagsfundi skal boða eigi síðar en á hádegi næsta vinnudag áður en fund skal halda. Fundi skal auglýsa í öllum ráðuneytum og deildum stjórnarráðsins. Aðalfund skal boða með minnst viku fyrirvara með auglýsingu og jafnframt með bréfi til trúnaðarmanna. Í aðalfundarboði skal getið dagskrárliða, ef aðrir eru en venjuleg aðalfundarstörf.

13. gr.

Formaður stýrir félagsfundum öðrum en aðalfundum. Heimilt er honum þó að skipa sérstakan fundarstjóra. Fundarstjóri úrskurðar ágreining um fundarsköp.

14. gr.

Halda skal gerðabók um alla félags- og stjórnarfundi.

15. gr.

Reikningsár félagsins miðast við 31. desember ár hvert.

16. gr.

Ákvörðun um félagsgjald gildir frá 1. maí til 30. apríl ár hvert. Aðildargjöld félagsmanna samkvæmt 3. gr. skulu innheimt hjá kaupgreiðanda með hlutfallslegum greiðslum mánaðarlega. Nýr félagsmaður greiðir hlutfallslegt félagsgjald frá næstu mánaðamótum eftir að hann telst aðili að félaginu. Aðildargjöld félagsmanna samkvæmt 5. gr. skulu innheimt með hlutfallslegum greiðslum mánaðarlega. Lífeyrisþegar greiða ekki aðildargjöld.

17. gr.

Félagsstjórn eða félagsfundi er heimilt að ákveða að fram skuli fara allsherjaratkvæðagreiðsla í félaginu um meiriháttar mál. Stjórn félagsins tilnefnir kjörstjórn við allsherjaratkvæðagreiðslur.

18. gr.

Á félagsfundum er heimilt að kjósa nefndir til að fjalla um ákveðin málefni í samráði við félagsstjórn. Stjórninni er og heimilt að kveðja félagsmenn einn eða fleiri sér til aðstoðar í einstökum málum.

19. gr.

Starfsmenn á hverjum vinnustað kjósa trúnaðarmann úr sínum hópi skv. lögum nr. 94/1986. Félagsstjórn setur trúnaðarmönnum starfsreglur.

20. gr.

Trúnaðarmenn þeir sem tilnefndir eru skv. 19. gr. mynda ásamt stjórn og varastjórn trúnaðarmannaráð. Hlutverk þess er að ræða og undirbúa meiriháttar mál fyrir félagsfundi og vera félagsstjórn til aðstoðar eftir því sem þörf krefur á hverjum tíma. Nánari starfsreglur getur stjórn félagsins ákveðið.

21. gr.

Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda sé breyting samþykkt með tveimur þriðju hlutum atkvæða fundarmanna.

22. gr.

Félaginu verður aðeins slitið með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi, enda liggi fyrir tillaga stjórnar um það. Þá skal stjórn skipa félagsslitanefnd sem sér um ráðstöfun eigna félagsins í samræmi við ákvörðun á aðalfundi.

23. gr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.
Jafnframt eru úr gildi felld eldri félagslög með síðari breytingum.

Reykjavík, 3. október 2023